Reiðhjól eru framtíðin fyrir Uber

Þrátt fyrir að vera eitt allra vinsælasta smáforritið í heiminum hefur Uber átt í erfiðleikum með hagnað fyrirtækisins. Fyrirtækið tilkynnti nýlega 2,8 milljarða hagnað af tekjum sínum á síðasta ársfjórðungi en það er rúmlega 60% aukning samanborið við sama tímabil í fyrra. Hins vegar er fyritækið enn rekið með um 891 milljón dollara tapi sem þó hefur verulega lækkað síðan á síðasta ári – sem er ekki hagkvæmt viðskiptamódel þegar til lengri tíma er litið.

Nú virðist sem að leigubíla-appið líti nú til reiðhjóla sem framtíðarkost á ýmsa vegu. Allt frá því að fjárfesta í borgarhjólaleigum og reyna við heimkeyrsluþjónustu á mat og fleiru í þeim dúr – þá lítur út fyrir að reiðhjól séu framtíðarvon fyrir velgengni Uber. Stjórn Uber hefur nýlega fjárfest milljónum í deilihjólafyrirtækið Lime sem nú er rekið í yfir 40 borgum um allan heim. Lime er reiðhjólaleiga sem byggir á smáforriti í síma þar sem viðskiptavinir þeirra geta sótt og skilið eftir hjól á hvaða stað sem er í viðkomandi borg – án þess að þurfa tengikví. Þetta virðist ganga gegn upphaflegri viðskiptahugmynd Uber, en bent hefur verið á að núverandi starfsemi Uber er einfaldlega óhagkvæm.

Uber reynir einnig samkeppni við Deliveroo og aðrar svipaðar heimkeyrsluþjónustur á mat og þó svo að þeir hafi verulega litla hlutdeild á þeim markaði, þá virðist umhverfisvæn reiðhjólamenning það sem stjórnarmenn fyrirtækisins veðji á til arðvæni. Smáforritið Uber hefur einnig átt erfitt uppdráttar þar sem forritið hefur verið bannað í mörgum borgum og líklega munu fleiri borgir banna starfsemi þeirra með tímanum. Einn stærsti og gróðvænlegasti markaður Uber er í London og er nú með öllu óvíst hvort forritið eigi sér framtíð í bresku höfuðborginni. Gagnalekar sem og ákærur um kynferðislega áreitni af hendi bílstjóra sem hafa nýtt sér smáforritið hafa einnig skaðað ímynd fyrirtækisins sem nú virðist ætla að veðja á reiðhjól sem framtíðarlausn.